Sæl Alma
Mig langar að forvitnast varðandi manninn minn en í hruninu misstum við allt. Þá hafði hann verið að fjárfesta í alls konar verkefnum, hlutabréfum og gjaldeyri. Vandinn var sá þá að þetta var allt meira og minna fjármagnað með skuldum og við misstum allt okkar. Það sem veldur mér áhyggjum núna er að hann er byrjaður aftur. Þ.e. hann er að fjárfesta í alls konar verkefnum og eina sem ég tek eftir er að skuldirnar okkar eru að hækka. Hann virðist ekki geta einbeitt sér að einu verki heldur virðist hann vera út um allt og þetta virðist vera fjármagnað með lánum héðan og þaðan. Ég hef ótal sinnum reynt að fá hann til að setjast niður og skipuleggja þetta og setja niður á blað en hann kemur sér alltaf undan því og verður pirraður og reiður og segist hafa þetta undir stjórn. Það lítur út fyrir að hann sé að fá lán fyrir þessu flestu og er að nota fjármagn til að redda sér fyrir horn hér og þar. Einnig hef ég áhyggjur af því að lítið af þessum fjárfestingum virðast skila sér til okkar fjölskyldunnar og hann virðist aldrei hafa tíma til að eyða með mér og börnunum, eins og hann noti þetta til að forðast að eyða tíma með okkur. Er mögulegt að hann sé í raun spilafíkill og sé háður spennunni við að halda þessu öllu á floti? Er hægt að vera sjúklegur fjárfestir?
Kveðja M.
Sæl M.
Spilafíkn er mjög falinn sjúkdómur og fólk sem verður fyrir áhrifum sjúkdómsins áttar sig oft ekki á hvað er að gerast. Skilin á milli að fjárfesta og vera fjárhættuspilari eru mjög oft óljós. Í ljósi sögu ykkar þar sem þið hafið misst allt ykkar vegna skulda er mjög eðlilegt að þú hafir áhyggjur og mjög eðlilegt að fjármál fjölskyldunnar séu skýr og allt uppi á borðunum. Mín reynsla er að ef fólk er að fjármagna mikið með lánum og jafnvel að borga skuldir með nýjum lánum og færa lánað fjármagn milli skulda þá er yfirleitt eitthvað athugavert í gangi, hið minnsta þá er tilefni til að skoða hvað sé að gerast. Helstu einkenni spilafíknar eru að fólk verður mjög upptekið af og eyðir óeðlilegum tíma í fjárhættuspil eða eins og í ykkar tilfelli þessi verkefni. Einnig myndar einstaklingur þol og það þýðir að hann þarf að eyða meiri pening og tíma í „verkefnið“ og það sem nægði honum hér áður virkar ekki núna og því þarf hann að fjárfesta hærri upphæðir og/eða vera með fleiri verkefni. Þú talar einnig um að hann verði reiður og pirraður og kemur sér undan að ræða hlutina við þig og það er einmitt eitt af einkennum spilafíknar og það er flótti og vilja ekki tala af hreinskilni um vandann eða í hið minnsta um raunstöðuna. Því ef hann hefur stjórn og yfirsýn yfir fjármálin ætti ekki að vera vandi að setjast niður og útskýra stöðuna fyrir þér og hvernig verkefnunum miðar áfram. Ef þú finnur að eitthvað óeðlilegt er í gangi fylgdu þá innsæi þínu því yfirleitt þegar aðstandendur finna slíkt þá því miður reynist það rétt. Fólk sem verður fyrir áhrifum spilafíknar áttar sig oft ekki á hvað sé að gerast þar sem ekki er hægt að finna lykt eða sjá það á fólki, en finna má einkenni spilafíknar yfirleitt fyrst á fjármálunum og ef fjármálin eru óljós, óskýr eða óeðlileg ráðlegg ég þér að leita aðstoðar til að komast að því hvort maðurinn þinn sé að kljást við spilafíkn. Það er til spurningalisti sem aðstoðar fólk við að finna út hvort það eigi við spilavanda að etja og set ég hlekk hér fyrir þig til að sjá og vonandi færðu hann til að setjast niður með þér og svara þeim spurningum. Gangi þér vel og mundu að það er mjög eðlilegt að þú hafir áhyggjur og ef þið eruð með sameiginleg fjármál þá er það eðlilegasta mál að þið séuð bæði upplýst og meðvituð um eignir og skuldir og stöðu fjárhags ykkar.
Kær kveðja, Alma Hafsteins
Sæl Alma
Mig langar að fá upplýsingar varðandi son okkar hjóna. Málið er að hann er 25 ára og í svona um það bil 3-4 ár hefur hann verið að einangra sig, flosnað upp úr námi, helst illa í vinnu og er nánast orðinn vinalaus, sökum þess að hann einangrar sig. Hann er aðallega í tölvunni og inni í herbergi hjá sér. Á lítil sem engin samskipti við okkur foreldra sína né systkini. Vill ekki og kemur sér undan að koma með okkur í afmæli eða viðburði og satt best að segja upplifum við að hann hafi engan áhuga á nokkrum sköpuðum hlut. Þegar hann talar við okkur vill hann ekki ræða þessa hluti, verður uppstökkur, reiður og argur við okkur. Við höfum velt því fyrir okkur hvort að hann sé þunglyndur, kvíðinn eða félagsfælinn. Drengurinn minn var alltaf glaður, félagslegur og tók virkan þátt í daglegu líf. Svo um 17-18 ára aldur fórum við að taka eftir breytingum á honum. Um þetta sama leyti byrjar hann að spila póker á netinu og fyrst til að byrja með sagði hann okkur frá þessu. Hann væri að spila á svokölluðum pókermótum og gengi vel. Síðan þá hefur staðan að okkar mati bara verið niður á við. Við höfum verulegar áhyggjur af honum þar sem hann dvelur bara í herberginu sínu, talar ekki við neinn og borið hefur á innheimtubréfum þar sem hann virðist vera kominn í veruleg vanskil og miklar skuldir. Er mögulegt að þetta ástand hans sé tilkomið vegna spilavanda hjá honum og ef svo er hvað er til ráða fyrir hann og okkur?
Kveðja, Kristín.
Sæl Kristín
Takk fyrir fyrirspurnina. Því miður erum við að sjá allt of mikið af ungum drengjum sem verða háðir fjárhættuspili og þá póker á netinu. Vandinn við pókerspilara er að margir þeirra telja sig „góða spilara“ og pókerspil séu öðruvísi að því leytinu að menn spila yfirleitt við annan spilara og því er útkomann ekki háð líkindum eins og t.d. í spilakössum. Vandinn er að það verður alltaf hluti af þessum spilurum háður pókerspilum og þá skiptir engu máli hvort fólk er góðir pókerspilarar eða ekki. Því vandi fjárhættuspilara er að þeir missa stjórn og hafa þvi ekki stjórn hvorki á þeim tíma sem þeir eyða í pókerspil né hve háum uppæðum þeir eyða. Í ráðgjöfinni hjá mér bera menn yfirleitt alltaf það sama fyrir sig „ef ég bara myndi hætta þegar vel gengur“ en það er einmitt vandinn að fólk hefur ekki stjórn og jafnvel ekki val um hvenær skuli hætta þar sem fjárhættuspilarar sem eiga við vanda að etja hætta ekki fyrr en allt er búið. Miðað við lýsingarnar þínar bendir allt til að sonur þinn eigi við spilavanda að etja og hefur hann aukist með árunum og orðinn verulegur miðað við stöðuna í dag. Ég ráðlegg ykkur að byrja á að reyna að fá hann til að taka sjálfspróf sem ég set hlekk að hér að neðan og sjá hvað kemur í ljós þar. Síðan ráðlegg ég ykkur að setjast niður með honum og reyna að fá hann til að tala við ykkur. Spilafíkn er mjög alvarlegur sjúkdómur og hefur ekkert með sjálfsaga eða metnað að gera og mjög mikilvægt að hann átti sig á að hann er ekki einn og hans vandi er alls ekki einstakur. Einnig ráðlegg ég ykkur að kynna ykkur GA-samtökin og fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla. Varðandi fjármálin þá ráðlegg ég ykkur að byrja að finna út hvort hann sé spilafíkill eða ekki og finna svo út úr fjármálunum. Ef þið byrjið að leysa úr fjármálunum en látið vera að hjálpa honum og ykkur með spilafíknina (ef hann er spilafíkill) þá mun hann fara fljótlega í sama farið aftur og í raun valda meiri skaða en hitt. Einnig er mjög mikilvægt að ná til hans hvort sem hann er að kljást við spilafíkn eða ekki þar sem rannsóknir sýna að þessi hópur, drengir á aldrinum 18-25, eru í áhættuhóp hvað varðar verulega vanlíðan og jafnvel sjálfsvíg. Ef ykkur grunar að hann geti eða sé að hugsa um að skaða sig ráðlegg ég ykkur að hafa samband við lækni strax.
Kær kveðja,
Alma Hafsteins
Góðan dag Alma.
Ég er með spurningu. Málið er að ég eftirlét syni mínum veð vegna neyslulána (ekki lyfja). Hann hefur lifað flott og um efni fram. Hann bjó hjá kærustunni sinni og lifði á yfirdrætti.Þetta var 2016 og lánið var alls 9.000.000 kr. til 40 ára. Lánið átti að létta þeim lífið. Þau borguðu af því í 3 ár en þá byrjaði söfnunin aftur. Nú þarf ég að borga af láninu 71.000 kr. á mánuði af eftirlaununum sem eru ekki há.Mér hefur ekki gengið vel að ræða þetta við hann.
Kv. S
Sæll S
Vandinn við að lána og þá sérstaklega veð er sá að stundum erum við að lána eða veita veð sem við höfum ekki efni á að lána eða veita. Munurinn á að lána veð eða pening er að í þessu tilfelli ertu í raun að lána pening sem þú átt ekki til eins og staðan er í dag. Það er að þessi peningur er bundinn, væntanlega í íbúð, og því ekki um beinharðan pening að ræða. Einnig ertu að taka áhættu með þitt eigið búsetuöryggi og kostnaðurinn við að taka lán er mun hærri en bara þessar 9 milljónir. Auk þess ertu að binda þig til 40 ára og treystir á að hann greiði af láninu eins og um var samið.Ég ráðlegg fólki ávallt þegar það stendur frammi fyrir svona ákvörðunum að veita ekki hærra veð til láns en það myndi ráða við að greiða af sjálft. Eða að lána aldrei meiri pening en það hefur tök á að tapa. Ég skil vel að þú hafir meint vel og einmitt hugsað þetta sem góða byrjun fyrir hann eða þau, nú eða sem aðstoð við að hugsanlega sameina allir skuldir og auðvelda honum greiðslubyrðina. Mjög margir foreldrar hafa einmitt gert hið sama og standa í þínum sporum, því miður. Einnig er mjög auðvelt að vera vitur eftir á en í grunninn þurfum við alltaf að bera ábyrgð á okkar eigin ákvörðunum og í þínu tilfelli þá lítur það þannig út að þessi skuldbinding lendi á þér að greiða. Ég ráðlegg þér að fylgjast með á spilavandi.is þar sem haldin eru fjölskyldunámskeið fyrir aðstandendur spilafíkla reglulega og skrá þig á slíkt námskeið og í framhaldi fá aðstoð við að finna leiðir til að ná tökum á þessu og gera viðeigandi ráðstafanir til að geta staðið við fjárhagsskuldbindingar þínar miðað við þær tekjur sem þú hefur. Það sem snýr að syni þínum og kemur ekki skýrt fram í spurningu þinni er hvort hann hafi tekið þetta lán til að borga upp aðrar skuldir og þá hvaða skuldir? Það að hann hafi safnað 9 milljóna króna skuld, er mjög óeðlilegt og mjög sennilegt að hann sé stjórnlaus í fjármálum.Ef hann er spilafíkill og er búinn að missa stjórnina á fjárhættuspilum þá er þetta eitt það versta sem aðstandendur gera og kallast „bail out“. Það er þegar spilafíkill er borgaður út úr vandræðum sínum án þess að taka á rót á vandans, spilafíkninni. Það eina sem það gerir er að viðhalda fíkninni og yfirleitt koma spilafíklar sér í enn verri skuldir á enn styttri tíma vegna þess að ekki er tekist á við það sem raunverulega er að.Spilafíkn er ekki fjárhagslegur sjúkdómur þó svo að ein birtingarmynd hans séu fjárhagserfiðleikar. Það er spilafíklum nauðsynlegt að horfast í augu við raunveruleikann og axla ábyrgð á sjúkdómi sínum og gjörðum. Þú getur sest niður með honum og farið yfir spurningalista sem hjálpar ykkur báðum að átta ykkur á hvort hann sé spilafíkill. Ég set link hér að neðan. http://spilavandi.is/sjalfsprof/ Einnig getur þú fengið einhvern nákominn eða einhvern sem hefur þekkingu til að setjast niður með þér og syni þínum og farið yfir stöðuna, því oftar en ekki hlusta börnin okkar á einhvern annan en okkur, til að fá að hann til að sjá raunstöðuna og hvernig þið getið fundið lausn á þessum vanda. Ég óska þér góðs gengis og syni þínum.
Kveðja, Alma Hafsteins
Sæl og takk fyrir svörin þín.
Þú ert algjörlega búin að opna augun mín fyrir nýju málefni – spilafíkn er greinilega víða eða hvað? En nú kem ég með spurninguna mína. Ég er frekar á hinum kantinum, vil fara vel með fjármagnið mitt, passa að eiga fyrir útgjöldum og fleira. En mér finnst reglulega í íslensku efnahagslífi – koma fram frumkvöðlar sem spila ansi djarft og samfélagið tekur undir í einhverri meðvirkni. Nú kemur spurningin mín: Eru frumkvöðlar, verðbréfamiðlarar og þeir sem spila djarft meðal annars með almannafé eða fjármagn annarra – í raun spilafíklar í grunninn?
Ég biðst velvirðingar ef ég er að fara yfir einhver mörk í spurningu minni, en ég er að reyna að skilja þennan öldugang betur í íslensku efnahagslífi og spái mikið í hagfræði en hef aldrei tengt þetta áður einhverju stjórnleysi tengt fíkn.
Kveðja, K
Sæl K
Takk fyrir að lesa spurningarnar og svörin. Það gleður mig að þetta málefni sé að fá áheyrn og opna augu fólks. Varðandi spurningu þína þá er spilafíkn og spilavandi mjög falinn sjúkdómur og alls ekki alltaf auðvelt að greina sjúkdóminn. Staðal ímynd spilafíkils er mjög svo takmörkuð í hugum okkar flestra og því áttar fólk sig alls ekki á að um fíknisjúkdóm sé að ræða. Spilafíkn fer ekki í manngreinaálit – allir geta veikst af spilafíkn. Spilafíkn er ekki slæmur ávani, heldur mjög erfiður, lúmskur og skæður sjúkdómur. Á svipaðan hátt og fólk verður háð áfengi eða fíkniefnum verða spilafíklar haldnir óstjórnlegri löngun til að leggja undir fé í ýmis konar fjárhættuspilum og einstaklingurinn missir hæfni og getu til að stjórna eigin fjármálum og lífi. Ljóst er að alkóhólistar eru ekki bara rónar niðri bæ heldur alveg eins forstjórar, framkvæmdastjórar og deildarstjórar á sama hátt eru ekki allir spilafíklar að spila í spilakössum heldur í alls konar fjárfestingum.
Þegar við tölum um fjárhættuspil þá getur það verið allt frá spilakössum til allskyns fjárfestinga og allt þar á milli. Og varðandi spurningu þína um fjárfestingar og íslensk efnahagslíf þá eru ýmis einkenni spilafíknar að sjá þar. Stundum virðist fólk mjög svo áhættusækið og línan á milli áhættusækni og spilafíknar er mjög svo óljós.
Hugtakið „þetta reddast“ hefur oft einkennt íslenskt viðskiptalíf og í hruninu kom í ljós að fólk fjárfesti og fór með almennafé, sjóði og jafnvel ævisparnað fólks á mjög svo varasamann hátt. Eitt af einkennum spilafíknar er að þolið eykst og spilafíkilinn þarf meiri spennu og upphæðirnar hækka og oftar en ekki þá þarf spilafíkill að fjármagna fíkn sína með lánum, hvort sem um er að ræða heiðarlegt lán nú eða spilafíklar „fá lánað“ þ.e. stela fjármagni með það fyrir augum að skila fjármagninu aftur. Innan raða fjárfesta eins og allstaðar annarsstaðar leynast spilafíklar. Eini munurinn þar er að við sem samfélag tölum um þessa einstaklinga sem „athafnamenn“, „fjárfesta“ og „frumkvöðla“. Hægt að taka sjálfspróf og ráðlegg ég fólki að taka það og sjá hvort hugsanlega eigi það við vanda að etja – smelltu hér til að taka sjálfspróf.
Flestir spilafíklar eiga sér sitt uppáhalts t.d. spilakassa, bingó, hlutabréf, leggja undir íþróttaviðburði, póker eða sýsla með gjaldeyri. Margir spilafíklar hafa spilað með hlutabréf, skuldabréf og gjaldeyri. Það skiptir í raun engu máli hvernig spilafíklar spila þeir eru ávalt að kljást við sama vandann.
Flestir byrja að stunda fjárhættuspil eða viðskipti sér til skemmtunar eða fjárfesta til að hafa tekjur af eða í viðskiptalegum tilgangi. Flestir geta gert þetta innan eðliegra marka og án teljandi tjóns, en svo er alltaf ákveðin hópur fólks sem missir stjórnina og þetta verður sjúklegt. Þeir einstaklingar sem verða háðir og missa stjórn, eyða meiri fjármunum og tíma en upphaflaega stóð til og geta ekki, sama hvað þeir reyna hætt.
Einnig hef ég orðið vör við í minni ráðgjöf að við köllum þennan sama hóp oft spennufíkla og áhættusækið fólk þegar í raun það er bara að kljást við spilafíkn. Það eyðir meiri fjármunum en lagt var upp með og oftar en ekki fer fólk að elta tapið ef það á við eða eykur við skuldbindingar þegar eðilegast væri að hætta. Spilafíklar missa tökin og stjórnleysið felst meðal annars í að sjá ekki raunstöðuna heldur verður þetta einfaldlega spurning um að halda áfram. Spilafíkn alveg eins og aðrir fíknisjúkdómar skaða ekki eingöngu einstaklinginn sjálfan heldur allt hans umhverfi, fjölskyldu, vini og aðra sem standa einstaklingum næst.
Vonandi svarar þetta spurningu þinni og gefur þér innsýn í og fræðslu um fíknisjúkdóminn spilafíkn.
Kær kveðja,
Alma
0 comments on “Spurt & svarað frá lesendum”