Spurt & svarað frá lesendum

Sæl Alma 

Mig lang­ar að for­vitn­ast varðandi mann­inn minn en í hrun­inu misst­um við allt. Þá hafði hann verið að fjár­festa í alls kon­ar verk­efn­um, hluta­bréf­um og gjald­eyri. Vand­inn var sá þá að þetta var allt meira og minna fjár­magnað með skuld­um og við misst­um allt okk­ar. Það sem veld­ur mér áhyggj­um núna er að hann er byrjaður aft­ur. Þ.e. hann er að fjár­festa í alls kon­ar verk­efn­um og eina sem ég tek eft­ir er að skuld­irn­ar okk­ar eru að hækka. Hann virðist ekki geta ein­beitt sér að einu verki held­ur virðist hann vera út um allt og þetta virðist vera fjár­magnað með lán­um héðan og þaðan. Ég hef ótal sinn­um reynt að fá hann til að setj­ast niður og skipu­leggja þetta og setja niður á blað en hann kem­ur sér alltaf und­an því og verður pirraður og reiður og seg­ist hafa þetta und­ir stjórn. Það lít­ur út fyr­ir að hann sé að fá lán fyr­ir þessu flestu og er að nota fjár­magn til að redda sér fyr­ir horn hér og þar. Einnig hef ég áhyggj­ur af því að lítið af þess­um fjár­fest­ing­um virðast skila sér til okk­ar fjöl­skyld­unn­ar og hann virðist aldrei hafa tíma til að eyða með mér og börn­un­um, eins og hann noti þetta til að forðast að eyða tíma með okk­ur. Er mögu­legt að hann sé í raun spilafík­ill og sé háður spenn­unni við að halda þessu öllu á floti? Er hægt að vera sjúk­leg­ur fjár­fest­ir?

Kveðja M.

Sæl M. 

Spilafíkn er mjög fal­inn sjúk­dóm­ur og fólk sem verður fyr­ir áhrif­um sjúk­dóms­ins átt­ar sig oft ekki á hvað er að ger­ast. Skil­in á milli að fjár­festa og vera fjár­hættu­spil­ari eru mjög oft óljós. Í ljósi sögu ykk­ar þar sem þið hafið misst allt ykk­ar vegna skulda er mjög eðli­legt að þú haf­ir áhyggj­ur og mjög eðli­legt að fjár­mál fjöl­skyld­unn­ar séu skýr og allt uppi á borðunum. Mín reynsla er að ef fólk er að fjár­magna mikið með lán­um og jafn­vel að borga skuld­ir með nýj­um lán­um og færa lánað fjár­magn milli skulda þá er yf­ir­leitt eitt­hvað at­huga­vert í gangi, hið minnsta þá er til­efni til að skoða hvað sé að ger­ast. Helstu ein­kenni spilafíkn­ar eru að fólk verður mjög upp­tekið af og eyðir óeðli­leg­um tíma í fjár­hættu­spil eða eins og í ykk­ar til­felli þessi verk­efni. Einnig mynd­ar ein­stak­ling­ur þol og það þýðir að hann þarf að eyða meiri pen­ing og tíma í „verk­efnið“ og það sem nægði hon­um hér áður virk­ar ekki núna og því þarf hann að fjár­festa hærri upp­hæðir og/​eða vera með fleiri verk­efni. Þú tal­ar einnig um að hann verði reiður og pirraður og kem­ur sér und­an að ræða hlut­ina við þig og það er ein­mitt eitt af ein­kenn­um spilafíkn­ar og það er flótti og vilja ekki tala af hrein­skilni um vand­ann eða í hið minnsta um raun­stöðuna. Því ef hann hef­ur stjórn og yf­ir­sýn yfir fjár­mál­in ætti ekki að vera vandi að setj­ast niður og út­skýra stöðuna fyr­ir þér og hvernig verk­efn­un­um miðar áfram. Ef þú finn­ur að eitt­hvað óeðli­legt er í gangi fylgdu þá inn­sæi þínu því yf­ir­leitt þegar aðstand­end­ur finna slíkt þá því miður reyn­ist það rétt. Fólk sem verður fyr­ir áhrif­um spilafíkn­ar átt­ar sig oft ekki á hvað sé að ger­ast þar sem ekki er hægt að finna lykt eða sjá það á fólki, en finna má ein­kenni spilafíkn­ar yf­ir­leitt fyrst á fjár­mál­un­um og ef fjár­mál­in eru óljós, óskýr eða óeðli­leg ráðlegg ég þér að leita aðstoðar til að kom­ast að því hvort maður­inn þinn sé að kljást við spilafíkn. Það er til spurn­ingalisti sem aðstoðar fólk við að finna út hvort það eigi við spila­vanda að etja og set ég hlekk hér fyr­ir þig til að sjá og von­andi færðu hann til að setj­ast niður með þér og svara þeim spurn­ing­um. Gangi þér vel og mundu að það er mjög eðli­legt að þú haf­ir áhyggj­ur og ef þið eruð með sam­eig­in­leg fjár­mál þá er það eðli­leg­asta mál að þið séuð bæði upp­lýst og meðvituð um eign­ir og skuld­ir og stöðu fjár­hags ykk­ar. 

Kær kveðja, Alma Haf­steins 

Sæl Alma  

Mig lang­ar að fá upp­lýs­ing­ar varðandi son okk­ar hjóna. Málið er að hann er 25 ára og í svona um það bil 3-4 ár hef­ur hann verið að ein­angra sig, flosnað upp úr námi, helst illa í vinnu og er nán­ast orðinn vina­laus, sök­um þess að hann ein­angr­ar sig. Hann er aðallega í tölv­unni og inni í her­bergi hjá sér. Á lít­il sem eng­in sam­skipti við okk­ur for­eldra sína né systkini. Vill ekki og kem­ur sér und­an að koma með okk­ur í af­mæli eða viðburði og satt best að segja upp­lif­um við að hann hafi eng­an áhuga á nokkr­um sköpuðum hlut. Þegar hann tal­ar við okk­ur vill hann ekki ræða þessa hluti, verður upp­stökk­ur, reiður og arg­ur við okk­ur. Við höf­um velt því fyr­ir okk­ur hvort að hann sé þung­lynd­ur, kvíðinn eða fé­lags­fæl­inn. Dreng­ur­inn minn var alltaf glaður, fé­lags­leg­ur og tók virk­an þátt í dag­legu líf. Svo um 17-18 ára ald­ur fór­um við að taka eft­ir breyt­ing­um á hon­um. Um þetta sama leyti byrj­ar hann að spila póker á net­inu og fyrst til að byrja með sagði hann okk­ur frá þessu. Hann væri að spila á svo­kölluðum pókermót­um og gengi vel. Síðan þá hef­ur staðan að okk­ar mati bara verið niður á við. Við höf­um veru­leg­ar áhyggj­ur af hon­um þar sem hann dvel­ur bara í her­berg­inu sínu, tal­ar ekki við neinn og borið hef­ur á inn­heimtu­bréf­um þar sem hann virðist vera kom­inn í veru­leg van­skil og mikl­ar skuld­ir. Er mögu­legt að þetta ástand hans sé til­komið vegna spila­vanda hjá hon­um og ef svo er hvað er til ráða fyr­ir hann og okk­ur? 

Kveðja, Krist­ín. 

Sæl Krist­ín 

Takk fyr­ir fyr­ir­spurn­ina. Því miður erum við að sjá allt of mikið af ung­um drengj­um sem verða háðir fjár­hættu­spili og þá póker á net­inu. Vand­inn við póker­spil­ara er að marg­ir þeirra telja sig „góða spil­ara“ og póker­spil séu öðru­vísi að því leyt­inu að menn spila yf­ir­leitt við ann­an spil­ara og því er út­kom­ann ekki háð lík­ind­um eins og t.d. í spila­köss­um. Vand­inn er að það verður alltaf hluti af þess­um spil­ur­um háður póker­spil­um og þá skipt­ir engu máli hvort fólk er góðir póker­spil­ar­ar eða ekki. Því vandi fjár­hættu­spil­ara er að þeir missa stjórn og hafa þvi ekki stjórn hvorki á þeim tíma sem þeir eyða í póker­spil né hve háum uppæðum þeir eyða. Í ráðgjöf­inni hjá mér bera menn yf­ir­leitt alltaf það sama fyr­ir sig „ef ég bara myndi hætta þegar vel geng­ur“ en það er ein­mitt vand­inn að fólk hef­ur ekki stjórn og jafn­vel ekki val um hvenær skuli hætta þar sem fjár­hættu­spil­ar­ar sem eiga við vanda að etja hætta ekki fyrr en allt er búið. Miðað við lýs­ing­arn­ar þínar bend­ir allt til að son­ur þinn eigi við spila­vanda að etja og hef­ur hann auk­ist með ár­un­um og orðinn veru­leg­ur miðað við stöðuna í dag. Ég ráðlegg ykk­ur að byrja á að reyna að fá hann til að taka sjálfs­próf sem ég set hlekk að hér að neðan og sjá hvað kem­ur í ljós þar. Síðan ráðlegg ég ykk­ur að setj­ast niður með hon­um og reyna að fá hann til að tala við ykk­ur. Spilafíkn er mjög al­var­leg­ur sjúk­dóm­ur og hef­ur ekk­ert með sjálf­saga eða metnað að gera og mjög mik­il­vægt að hann átti sig á að hann er ekki einn og hans vandi er alls ekki ein­stak­ur. Einnig ráðlegg ég ykk­ur að kynna ykk­ur GA-sam­tök­in og fjöl­skyldu­nám­skeið fyr­ir aðstand­end­ur spilafíkla. Varðandi fjár­mál­in þá ráðlegg ég ykk­ur að byrja að finna út hvort hann sé spilafík­ill eða ekki og finna svo út úr fjár­mál­un­um. Ef þið byrjið að leysa úr fjár­mál­un­um en látið vera að hjálpa hon­um og ykk­ur með spilafíkn­ina (ef hann er spilafík­ill) þá mun hann fara fljót­lega í sama farið aft­ur og í raun valda meiri skaða en hitt. Einnig er mjög mik­il­vægt að ná til hans hvort sem hann er að kljást við spilafíkn eða ekki þar sem rann­sókn­ir sýna að þessi hóp­ur, dreng­ir á aldr­in­um 18-25, eru í áhættu­hóp hvað varðar veru­lega van­líðan og jafn­vel sjálfs­víg. Ef ykk­ur grun­ar að hann geti eða sé að hugsa um að skaða sig ráðlegg ég ykk­ur að hafa sam­band við lækni strax. 

Kær kveðja,

Alma Haf­steins­

Góðan dag Alma.

Ég er með spurn­ingu. Málið er að ég eft­ir­lét syni mín­um veð vegna neyslu­lána (ekki lyfja). Hann hef­ur lifað flott og um efni fram. Hann bjó hjá kær­ust­unni sinni og lifði á yf­ir­drætti.Þetta var 2016 og lánið var alls 9.000.000 kr. til 40 ára. Lánið átti að létta þeim lífið. Þau borguðu af því í 3 ár en þá byrjaði söfn­un­in aft­ur. Nú þarf ég að borga af lán­inu 71.000 kr. á mánuði af eft­ir­laun­un­um sem eru ekki há.Mér hef­ur ekki gengið vel að ræða þetta við hann.

Kv. S

Sæll S

Vand­inn við að lána og þá sér­stak­lega veð er sá að stund­um erum við að lána eða veita veð sem við höf­um ekki efni á að lána eða veita. Mun­ur­inn á að lána veð eða pen­ing er að í þessu til­felli ertu í raun að lána pen­ing sem þú átt ekki til eins og staðan er í dag. Það er að þessi pen­ing­ur er bund­inn, vænt­an­lega í íbúð, og því ekki um bein­h­arðan pen­ing að ræða. Einnig ertu að taka áhættu með þitt eigið bú­setu­ör­yggi og kostnaður­inn við að taka lán er mun hærri en bara þess­ar 9 millj­ón­ir. Auk þess ertu að binda þig til 40 ára og treyst­ir á að hann greiði af lán­inu eins og um var samið.Ég ráðlegg fólki ávallt þegar það stend­ur frammi fyr­ir svona ákvörðunum að veita ekki hærra veð til láns en það myndi ráða við að greiða af sjálft. Eða að lána aldrei meiri pen­ing en það hef­ur tök á að tapa. Ég skil vel að þú haf­ir meint vel og ein­mitt hugsað þetta sem góða byrj­un fyr­ir hann eða þau, nú eða sem aðstoð við að hugs­an­lega sam­eina all­ir skuld­ir og auðvelda hon­um greiðslu­byrðina. Mjög marg­ir for­eldr­ar hafa ein­mitt gert hið sama og standa í þínum spor­um, því miður. Einnig er mjög auðvelt að vera vit­ur eft­ir á en í grunn­inn þurf­um við alltaf að bera ábyrgð á okk­ar eig­in ákvörðunum og í þínu til­felli þá lít­ur það þannig út að þessi skuld­bind­ing lendi á þér að greiða. Ég ráðlegg þér að fylgj­ast með á spila­vandi.is þar sem hald­in eru fjöl­skyldu­nám­skeið fyr­ir aðstand­end­ur spilafíkla reglu­lega og skrá þig á slíkt nám­skeið og í fram­haldi fá aðstoð við að finna leiðir til að ná tök­um á þessu og gera viðeig­andi ráðstaf­an­ir til að geta staðið við fjár­hags­skuld­bind­ing­ar þínar miðað við þær tekj­ur sem þú hef­ur. Það sem snýr að syni þínum og kem­ur ekki skýrt fram í spurn­ingu þinni er hvort hann hafi tekið þetta lán til að borga upp aðrar skuld­ir og þá hvaða skuld­ir? Það að hann hafi safnað 9 millj­óna króna skuld, er mjög óeðli­legt og mjög senni­legt að hann sé stjórn­laus í fjár­mál­um.Ef hann er spilafík­ill og er bú­inn að missa stjórn­ina á fjár­hættu­spil­um þá er þetta eitt það versta sem aðstand­end­ur gera og kall­ast „bail out“. Það er þegar spilafík­ill er borgaður út úr vand­ræðum sín­um án þess að taka á rót á vand­ans, spilafíkn­inni. Það eina sem það ger­ir er að viðhalda fíkn­inni og yf­ir­leitt koma spilafíkl­ar sér í enn verri skuld­ir á enn styttri tíma vegna þess að ekki er tek­ist á við það sem raun­veru­lega er að.Spilafíkn er ekki fjár­hags­leg­ur sjúk­dóm­ur þó svo að ein birt­ing­ar­mynd hans séu fjár­hagserfiðleik­ar. Það er spilafíkl­um nauðsyn­legt að horf­ast í augu við raun­veru­leik­ann og axla ábyrgð á sjúk­dómi sín­um og gjörðum. Þú get­ur sest niður með hon­um og farið yfir spurn­ingalista sem hjálp­ar ykk­ur báðum að átta ykk­ur á hvort hann sé spilafík­ill. Ég set link hér að neðan. http://​spila­vandi.is/​sjalfsprof/ Einnig get­ur þú fengið ein­hvern ná­kom­inn eða ein­hvern sem hef­ur þekk­ingu til að setj­ast niður með þér og syni þínum og farið yfir stöðuna, því oft­ar en ekki hlusta börn­in okk­ar á ein­hvern ann­an en okk­ur, til að fá að hann til að sjá raun­stöðuna og hvernig þið getið fundið lausn á þess­um vanda. Ég óska þér góðs geng­is og syni þínum.

Kveðja, Alma Hafsteins

Sæl og takk fyr­ir svör­in þín. 

Þú ert al­gjör­lega búin að opna aug­un mín fyr­ir nýju mál­efni – spilafíkn er greini­lega víða eða hvað? En nú kem ég með spurn­ing­una mína. Ég er frek­ar á hinum kant­in­um, vil fara vel með fjár­magnið mitt, passa að eiga fyr­ir út­gjöld­um og fleira. En mér finnst reglu­lega í ís­lensku efna­hags­lífi – koma fram frum­kvöðlar sem spila ansi djarft og sam­fé­lagið tek­ur und­ir í ein­hverri meðvirkni. Nú kem­ur spurn­ing­in mín: Eru frum­kvöðlar, verðbréfamiðlar­ar og þeir sem spila djarft meðal ann­ars með al­manna­fé eða fjár­magn annarra – í raun spilafíkl­ar í grunn­inn? 

Ég biðst vel­v­irðing­ar ef ég er að fara yfir ein­hver mörk í spurn­ingu minni, en ég er að reyna að skilja þenn­an öldu­gang bet­ur í ís­lensku efna­hags­lífi og spái mikið í hag­fræði en hef aldrei tengt þetta áður ein­hverju stjórn­leysi tengt fíkn. 

Kveðja, K

 

Sæl K

Takk fyr­ir að lesa spurn­ing­arn­ar og svör­in. Það gleður mig að þetta mál­efni sé að fá áheyrn og opna augu fólks. Varðandi spurn­ingu þína þá er spilafíkn og spila­vandi mjög fal­inn sjúk­dóm­ur og alls ekki alltaf auðvelt að greina sjúk­dóm­inn. Staðal ímynd spilafíkils er mjög svo tak­mörkuð í hug­um okk­ar flestra og því átt­ar fólk sig alls ekki á að um fíkni­sjúk­dóm sé að ræða. Spilafíkn fer ekki í mann­greina­álit – all­ir geta veikst af spilafíkn. Spilafíkn er ekki slæm­ur ávani, held­ur mjög erfiður, lúmsk­ur og skæður sjúk­dóm­ur. Á svipaðan hátt og fólk verður háð áfengi eða fíkni­efn­um verða spilafíkl­ar haldn­ir óstjórn­legri löng­un til að leggja und­ir fé í ýmis kon­ar fjár­hættu­spil­um og ein­stak­ling­ur­inn miss­ir hæfni og getu til að stjórna eig­in fjár­mál­um og lífi. Ljóst er að alkó­hólist­ar eru ekki bara rón­ar niðri bæ held­ur al­veg eins for­stjór­ar, fram­kvæmda­stjór­ar og deild­ar­stjór­ar á sama hátt eru ekki all­ir spilafíkl­ar að spila í spila­köss­um held­ur í alls kon­ar fjár­fest­ing­um. 

Þegar við töl­um um fjár­hættu­spil þá get­ur það verið allt frá spila­köss­um til allskyns fjár­fest­inga og allt þar á milli. Og varðandi spurn­ingu þína um fjár­fest­ing­ar og ís­lensk efna­hags­líf þá eru ýmis ein­kenni spilafíkn­ar að sjá þar. Stund­um virðist fólk mjög svo áhættu­sækið og lín­an á milli áhættu­sækni og spilafíkn­ar er mjög svo óljós. 

Hug­takið „þetta redd­ast“ hef­ur oft ein­kennt ís­lenskt viðskipta­líf og í hrun­inu kom í ljós að fólk fjár­festi og fór með al­menna­fé, sjóði og jafn­vel ævi­sparnað fólks á mjög svo vara­sa­mann hátt. Eitt af ein­kenn­um spilafíkn­ar er að þolið eykst og spilafíkil­inn þarf meiri spennu og upp­hæðirn­ar hækka og oft­ar en ekki þá þarf spilafík­ill að fjár­magna fíkn sína með lán­um, hvort sem um er að ræða heiðarlegt lán nú eða spilafíkl­ar „fá lánað“ þ.e. stela fjár­magni með það fyr­ir aug­um að skila fjár­magn­inu aft­ur.  Inn­an raða fjár­festa eins og allstaðar ann­arsstaðar leyn­ast spilafíkl­ar. Eini mun­ur­inn þar er að við sem sam­fé­lag töl­um um þessa ein­stak­linga sem „at­hafna­menn“, „fjár­festa“ og „frum­kvöðla“. Hægt að taka sjálfs­próf og ráðlegg ég fólki að taka það og sjá hvort hugs­an­lega eigi það við vanda að etja – smelltu hér til að taka sjálfs­próf.

Flest­ir spilafíkl­ar eiga sér sitt upp­á­halts t.d. spila­kassa, bingó, hluta­bréf, leggja und­ir íþróttaviðburði, póker eða sýsla með gjald­eyri. Marg­ir spilafíkl­ar hafa spilað með hluta­bréf, skulda­bréf og gjald­eyri. Það skipt­ir í raun engu máli hvernig spilafíkl­ar spila þeir eru ávalt að kljást við sama vand­ann. 

Flest­ir byrja að stunda fjár­hættu­spil eða viðskipti sér til skemmt­un­ar eða fjár­festa til að hafa tekj­ur af eða í viðskipta­leg­um til­gangi. Flest­ir geta gert þetta inn­an eðliegra marka og án telj­andi tjóns, en svo er alltaf ákveðin hóp­ur fólks sem miss­ir stjórn­ina og þetta verður sjúk­legt. Þeir ein­stak­ling­ar sem verða háðir og missa stjórn, eyða meiri fjár­mun­um og tíma en upp­hafla­ega stóð til og geta ekki, sama hvað þeir reyna hætt. 

Einnig hef ég orðið vör við í minni ráðgjöf að við köll­um þenn­an sama hóp oft spennufíkla og áhættu­sækið fólk þegar í raun það er bara að kljást við spilafíkn. Það eyðir meiri fjár­mun­um en lagt var upp með og oft­ar en ekki fer fólk að elta tapið ef það á við eða eyk­ur við skuld­bind­ing­ar þegar eðileg­ast væri að hætta. Spilafíkl­ar missa tök­in og stjórn­leysið felst meðal ann­ars í að sjá ekki raun­stöðuna held­ur verður þetta ein­fald­lega spurn­ing um að halda áfram. Spilafíkn al­veg eins og aðrir fíkni­sjúk­dóm­ar skaða ekki ein­göngu ein­stak­ling­inn sjálf­an held­ur allt hans um­hverfi, fjöl­skyldu, vini og aðra sem standa ein­stak­ling­um næst. 

Von­andi svar­ar þetta spurn­ingu þinni og gef­ur þér inn­sýn í og fræðslu um fíkni­sjúk­dóm­inn spilafíkn. 

Kær kveðja, 

Alma 

Did you like this? Share it!

0 comments on “Spurt & svarað frá lesendum

Leave Comment